Leikskólinn Múlaborg

Article Index

Leikskólinn Múlaborg var formlega stofnaður 24. janúar árið 1975 og hann var byggður af Reykjavíkurborg sem fjögra deilda leikskóli.

Í upphafi var gert samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Barnavinafélagsins Sumargjafar sem sá um rekstur leikskóla í Reykjavíkurborg á þeim tíma, að ein af deildum hins nýja leikskóla yrði afhent Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra til rekstrar fyrir börn sem áttu við hreyfihömlun að stríða. Þetta rekstrarfyrirkomulag stóð yfir þar til í janúar 1978 er Reykjavíkurborg yfirtók rekstur leikskóla Sumargjafar. Þann 1. maí sama ár yfirtók Reykjavíkurborg ennfremur rekstur sérdeildar leikskólans Múlaborgar.
Hugmyndafræðin að baki þessarar samvinnu var að þessir hópar hreyfihamlaðra og heilbrigðra barna myndu getað blandast saman í leik og starfi. Það var ekki sjálfgefið á þeim tíma. Lög og reglugerðir um málefni fatlaðra breyttust síðar þar sem áhersla var lögð á blöndun þ.e. að fatlaður einstaklingur umgekkst að einhverju leiti ófatlað barn með heimsókn á almenna deild eða með samveru í sal.

Árið 1992 hófst síðan aðlögun að breytingum þar sem fötluð börn voru alfarið á almennri deild og sérdeildin var lögð niður. Breytingin átti sér stað haustið 1993. Sumarið 1994 var hafist handa við að endurskipuleggja útileiksvæði Múlaborgar með þarfir þessa hóps í huga. Þeim framkvæmdum lauk sumarið 1995.

Síðustu ár hefur verið unnið eftir hugmyndafræði heildtækrar skólastefnu sem þýðir í raun sameiginlegt uppeldi fatlaðra og ófatlaðra eða skóli fyrir alla. Lög um leikskóla gera ráð fyrir að öll börn geti notið leikskólavistar og að komið sé til móts við þarfir hvers einstaklings. Frá upphafi skólans hafa fötluð börn notið þjónustu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.