Um tákn með tali

Leikskólinn Múlaborg sérhæfir sig í sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna.  Skólinn leggur áherslu á notkun tákna með tali.  Tákn vikunnar er kynnt á öllum deildum og á heimasíðunni.  Leikskólinn Múlaborg á sér langa sögu í notkun tákna með tali.  Starfsfólk leikskólans notar tákn með tali í öllum söng- og samverustundum.  Lag og tákn vikunnar er gjarnan ákveðið með tilliti til veðurs, árstíðar, þemu eða það sem er í gangi í leikskólanum hverju sinni.

Tákn með tali er frábrugðið táknmáli heyrnarlausra að því leyti að táknin eru ávallt notuð samhliða tali.  Setningar eru stuttar og lykilorð hverrar setningar táknað.  Þegar starfsfólk notar tákn með tali talar það hægar og skýrar auk þess sem áhersla er lögð á lykilorðið í setningunni.  Þegar við gerum orðin ,,sýnileg", tölum hægar og skýrar er auðveldara fyrir barnið að skilja það sem við segjum.  Notkun tákna með tali auðveldar börnum af erlendum uppruna og þeim börnum sem eru sein til máls að ná íslensku tali.

Öll börn og allir starfsmenn á Múlaborg eiga sitt nafnatákn.